Með tvær þyrlur í skúrnum og Ása og hlaðvörpin

Við fréttum af manni í Mosfellsdalnum sem á meðal annars tvær þyrlur í bílskúrnum sínum auk fjölda annarra farartækja. Þetta þótti okkur forvitnilegt. Hann heitir Guðbergur Guðbergsson, fasteignasali, og við mæltum okkur mót við hann og fengum hann til að sýna okkur græjurnar, aðalega þyrlurnar, í bílskúrnum, sem er eiginlega rangnefni á það gríðarstóra rými sem hann hefur komið sér upp þar sem kennir ýmissa grasa, svo sannarlega draumaheimur græjufíkilsins. Ása Baldursdóttir, sérlegur sérfræðingur þáttarins þegar kemur að hlaðvörpum og efnisveitum, kom í þáttinn í dag. Ása fjallaði í dag um hrollvekjandi hlaðvarpið Shallow Graves, sem er um fjöldamorðingja þar sem ekki er allt sem sýnist. Svo sagði hún frá norsku gamandramaþáttaröðinni Pörni, sem er um einstæða móður í krísu, en Ása fékk hvert hláturskastið á fætur öðru þegar hún horfði á þættina. Að lokum sagði hún frá fjögurra þátta heimildaþáttaröð, Keep Sweet, Pray and Obey, sem er um ógnvænlegan trúarsöfnuð þar sem ofbeldisgjörningar náðu hæstu hæðum. Tónlist í þættinum í dag: Ég stoppa hnöttinn með puttanum / Helgi Björnsson (Helgi Björnsson, Guðmundur Óskar Guðmundsson og Atli Bollason) Flugvélar / Nýdönsk (Jón Ólafsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson) Einsemd / Snorri Helgason (Snorri Helgason og Guðmundur Óskar Guðmundsson) UMSJÓN: GUNNAR HANSSON

Om Podcasten

Um litróf mannlífsins. Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.