Metaverse og ópíumrækt í Afganistan

Hádegið - A podcast by RÚV

Categories:

Móðurfélag samskiptarisans Facebook skipti um nafn í lok októbermánaðar, og heitir nú Meta. Samfélagsmiðilinn sjálfur, Facebook, heldur þó nafni sínu rétt eins og samfélagsmiðlarnir Instagram og skilaboðaforritið WhatsApp, sem eru bæði í eigu Facebook. Þegar þessar fréttir voru nýjar af nálinni fengum við Davíð Lúther Sigurðarsson framkvæmdastjóra auglýsingastofunnar Sahara til að ræða um nafnabreytinguna og hvað Facebook, eða Meta ætlar sér. Vatn hefur runnið til sjávar þá og við ætlum að einblína í dag á þann sýndarveruleikaheim sem Meta er nú í óða önn að þróa, Metaverse, heim sem mun gjörbreyta lífi okkar - ef áætlanir Meta ná fram að ganga. Kristjana Björk Barðdal, tæknisérfræðingur Hádegisins og umsjónamaður UT hlaðvarps Ský, ræðir við okkur um Metaverse í dag. Heróín flæðir nú frá Afganistan til vesturlanda sem aldrei fyrr og áætlað er að nýtt met verði sett í framleiðslunni í ár - 90% af öllu heróíni í heiminum kemur frá þessu eina landi. Talíbanar, sem nýlega hrifsuðu til sín öll völd í landinu, bönnuðu ópíum rækt þegar þeir voru síðast við völd fyrir tuttugu árum, en staðan er gjörbreytt í dag. Hagkerfið er algjörlega háð framleiðslunni sem heldur lífinu í milljónum Afgana og sjálfir hafa Talíbanar reitt sig á ópíum útflutning til að fjármagna sína baráttu. Við skoðum þetta í síðari hluta þáttarins með Gunnari Hrafni Jónssyni, blaðamanni og sérfræðingi í málefnum Mið-Austurlanda. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.