054 - President Starkey

KISS Army Iceland Podcast - A podcast by KISS ARMY ICELAND

Categories:

Hvað er KISS ARMY? Hvaðan er KISS ARMY? Hver stofnaði KISS ARMY og hvers vegna? Við fáum svör við þessu öllu ásamt fleiru í þættinum í dag. Þegar Bill Starkey var 17 ára gamall uppgötvaði hann KISS sem um leið varð hans uppáhalds hljómsveit. Útvarpsstöðin heima í Terre Haute í Indiana, Bandaríkjunum hafði þó ekki sama áhuga á KISS og hinn ungi Bill. Hann tók þá til sinna ráða og ásamt vini sínum Jay Evans stofnuðu þeir eitthvað sem þeir nefndu The KISS ARMY árið 1975. Um var að ræða aðdáendaklúbb sem hafði það hlutverk að þrýsta á útvarpsstöðvar til þess að spila KISS sem og að greiða aðrar götur bandsins eftir fremsta megni. Áður en Bill Starkey vissi af var hann kominn í innsta hring hljómsveitarinnar sem hann hélt svo mikið upp á. KISS flugu honum út um öll Bandaríkin þar sem hann var viðstaddur tónleika þeirra sem og hina ýmsu viðburði á vegum bandsins. Mætti í veislur þeirra, borðaði með þeim, gisti á hótelum með þeim og var ávallt með góðan og gildan baksviðspassa. Þetta var rússíbanareið sem loks tók þó enda eins og allir rússíbanar gera. Það var svo ekki fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar sem KISS ARMY lifnaði við á ný fyrir alvöru og það með góðri aðstoð frá sjálfum Tommy Thayer af öllum. Bill Starkey óraði aldrei fyrir því að litli klúbburinn hans sem hann stofnaði þarna fyrir þessum 47 árum myndi verða að því alheims fyrirbæri sem það er. KISS ARMY er viðurkenndur aðdáendaklúbbur KISS og er í dag starfræktur í tugum landa út um allan heim og meðlimir eru mörg þúsund. Þó að Bill Starkey sé stofnandi klúbbsins (og sé þannig forseti forsetanna) þá er hann ekki við stjórnvölin í dag. Þau völd missti hann ungur að árum þarna þegar rússíbaninn stöðvaðist. Við hringdum til Indianapolis og áttum einstakt spjall við herra Bill Starkey þar sem hann fór yfir þetta allt með okkur og svaraði nokkrum vel völdum spurningum. Afar ánægjulegur þáttur. Hosted on Acast. See acast.com/privacy for more information.