Ayurveda, Stærðfræðihvíslarinn og Alexander tenór

Mannlegi þátturinn - A podcast by RÚV

Categories:

Við fræddumst í dag um Ayurveda, sem eru yfir 5000 ára gömul lífvísindi, ættuð frá Indlandsskaganum og iðkuð víða um heim, til dæmis af um 80% íbúum Indlands og Nepal. En hvað er Ayurveda? Heiða Björk Sturludóttir, næringarþerapisti, jógakennari og umhverfisfræðingur hefur nú gefið út bókina Ayurveda, listin að halda jafnvægi í óstöðugri veröld. Bókinni er ætlað að vera leiðarvísir um þessi indversku lífvísindi. Heiða kom í þáttinn í dag og sagði okkur meira frá bókinni og Ayurveda. Stærðfræðin þyngist talsvert á unglingastigi grunnskólans, frá 8. - 10. bekk, og margir nemendur geta lent í verulegum vandræðum, þar sem þá skortir grunn og skilning. Ákveðinn vítahringur getur þá myndast og verið afar erfiður viðureignar. Halldór Örn Þorsteinsson, stærðfræðikennari til 14 ára, kallar sig stærðfræðihvíslarann og vinnur við að hjálpa nemendum sem eiga erfitt með að læra stærðfræði. Hann kom í þáttinn í dag. Alexander Jarl Þorsteinsson tenór mun syngja á óperutónleikunum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands sem verða haldnir á Höfn, í Vestmannaeyjum og á Selfossi í næstu viku. Alexander Jarl sem er aðalsöngvari tónleikanna uppgötvaði ástríðu sína fyrir óperu aðeins fimm ára að aldri, þökk sé föðurafa hans sem gjarnan lét hann hlusta á helstu perlur óperuheimsins frá unga aldri. Ári síðar, þá rétt orðinn sex ára hóf hann söngnám. Árið 2016 hóf Alexander nám við the Royal College of Music í London og eftir útskrift hefur Alexander Jarl sungið víðsvegar um Evrópu í fjölmörgum virtum óperuhúsum og nýlega þreytti hann frumraun sína sem Alfredo úr La Traviata eftir Verdi í Flórens. Alexander kom í þáttinn í dag. Tónlist í þættinum Heima / Haukur Morthens og hljómsveit Jörns Grauengaards (Oddgeir Kristjánsson og Ási í bæ) Must be love / Laufey (Max Wolfgang, Freddy Wexler & Laufey) Vísa Fiðlubjörns / Snorri Helgason (Snorri Helgason, höf. texta ókunnur) Mamma / Alexander Jarl Þorsteinsson Heiðlóarkvæði / Alexander Jarl Þorsteinsson og Eva Þyri Hilmarsdóttir (Atli Heimir Sveinsson og Jónas Hallgrímsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON