Kvennakórinn Katla, póstkort frá Magnúsi og Vera Sif Rúnarsdóttir

Mannlegi þátturinn - A podcast by RÚV - Wednesdays

Categories:

Við kíktum niður í Hörpu á æfingu hjá kvennakórnum Kötlu en þær eru með árlega vortónleika næstu helgi og kórinn er fjölmennur, en um 80 konur eru skráðar í hann og sérstök áhersla er lögð á búninga, leikmuni og gleði. Þær vilja líka láta gott af sér leiða í okkar samfélagi. Samstýrur kórsins, Hildigunnur Rúnarsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir, sögðu okkur frá starfinu og einnig var rætt við konur í búninganefnd kórsins, þær Ragnheiði Bjarnadóttur og Elínu Hörpu Valgeirsdóttur og svo að lokum stjórnarkonurnar Guðrúnu Helgadóttur, Söndru Harðardóttur og Sólveigu Ingólfsdóttur . Við fengum svo póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag. Í Þýskalandi standa núna yfir réttarhöld yfir næstum þrjátíu manns sem eru ákærðir fyrir að skipuleggja vopnaða byltingu gegn stjórn landsins. Aðalsprautan í hópnum er sjötíu og tveggja ára fasteignasali sem kallar sig prins Hinrik þrettánda. Frá þessu var sagt í póstkorti dagsins, en Magnús er nýkominn frá Þýskalandi þar sem þetta er ein aðalfréttin í fjölmiðlum. Hann sagði líka frá heimsókn sinni í pyntingartækjasafn í borginni Rothenburg, en safnið geymir ótrúleg tæki og tól frá miðöldum sem voru notuð til knýja fram játningar hjá sakamönnum aðallega konum sem voru kærðar fyrir galdra. Sjónaukinn, árleg ráðstefna heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri fór fram í síðustu viku. Þar voru flutt fjölmörg fjölbreyttu erindi en stór hluti af erindum á ráðstefnunni eru kynningar nema sem eru að ljúka meistaranámi í heilbrigðisvísindum á rannsóknarverkefnum sínum. Vera Sif Rúnarsdóttir kynnti niðurstöður rannsóknar á tengslum áfalla í æsku við almennt heilsufar á fullorðinsárum. Vera sagði okkur meira frá því í þættinum í dag. Tónlist í þættinum í dag: Þín hvíta mynd / Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur Kristinsson (Sigfús Halldórsson og Tómas Guðmundsson) Everybody’s Talkin’ / Harry Nilson (Fred Neil) Adios Muchachos / Stanley Black (Sanders & Vedani) UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR