Þorvaldur og eldfjöllin og bætt aðgengi að gömlum viðtölum
Mannlegi þátturinn - A podcast by RÚV

Categories:
Við töluðum um eldgos í Mannlega þættinum í dag, en ekki er svo langt frá því að eldgosinu lauk við Litla-Hrút á Reykjanesskaga, þriðja gosið á sl.þremur árum. Þegar gaus í Geldingadölum 2021 hafði ekki gosið á þeim slóðum í 6 þúsund ár. Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjalla- og bergfræði kom í þáttinn í dag og hann sagði að sumt bendi til þess að möttulstrókurinn sé að eflast og eitt af því sem helst rennir stoðum undir þá kenningu er sú staðreynd að kvikan, sem brotist hefur upp á yfirborðið síðustu þrjú ár sé ólík þeirri kviku sem sést hefur áður á Reykjanesskaga. Kvikan sú eigi meira skylt við þá sem kemur úr td. Heklu, Kötlu, Torfajökli, Grímsvötnum og Bárðarbungu. Hvað þýðir þetta? Og nú er land byrjað að rísa á ný á Reykjanesinu. Þorvaldur reyndi sitt besta að svara spurningum okkar í þættinum í dag. Við fræddumst í dag um þjóðfræðisafn Árnastofnunar, sem geymir yfir 2000 klukkustundir af viðtölum, sem flest voru tekin á árunum 1960 til 1980. Þau innihalda ómetanlegar upplýsingar um lífið snemma á 20. öldinni á Íslandi. Trausti Dagsson, þjóðfræðingur og verkefnastjóri í upplýsingatækni hjá Árnastofnun, kom til okkar í dag og sagði okkur frá talgreini sem hefur gerbylt aðgengi að efni safnsins og að þessum dýrmætu heimildum sem það hefur að geyma. Trausti sagði okkur frá þessu í þættinum og við fengum að heyra nokkur brot úr safninu. Tónlist í þættinum: KRISTÍN SESSELJA - Earthquake. EARTH WIND & FIRE - September. Ásgeir Ásgeirsson Tónlistarm., Haukur Gröndal, Richard Gudmundur Andersson - Allt að gerast. UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON