PTMF, Gréta S. Guðjónsdóttir og póstkort frá Magnúsi
Mannlegi þátturinn - A podcast by RÚV

Categories:
Við fræddumst í dag um PTMF, sem er nýtt skýringarmódel andlegrar vanlíðunar sem gefur annan valmöguleika en hefðbundin geðgreiningarkerfi. Í því er skoðað samband á milli félagslegra þátta, eins og fátæktar, mismununar og misréttis, ásamt áföllum til þess að lesa í afleiðingarnar. Kristín I. Pálsdóttir frá Rótinni kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá þessari aðferð, en aðalhöfundur PTMF, Lucy Johnstone, verður leiðbeinandi á vinnustofu á vegum Rótarinnar sem verður haldin á morgun á Hótel Grand Reykjavík. Fyrir hartnær tuttugu árum fékk Gréta S. Guðjónsdóttir ljósmyndari hugmynd þegar hún var að kenna 19 ára ungmennum ljósmyndun við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Margir nemenda hennar höfðu sterkar lífsskoðanir sem oftar en ekki gengu gegn viðhorfum eldri kynslóða sem þeim fannst að hefðu engan skilning á þeirra lífi. Rifjaðist það þá upp fyrir Grétu að einmitt svona hefði henni liðið á þessum árum og fór þá að hugsa um hvernig lífið endurtekur sig í sífellu. Á næstu tuttugu árum fylgdi Gréta níu nemendum sínum eftir í myndum, tók reglulega af þeim ljósmyndir og bað þau líka um að skrifa niður hugleiðingar sínar um hvar þau eru stödd í lífinu þá stundina og hvar þau sjá sig eftir fimm ár og tíu ár. Á laugardaginn verður opnuð sýning á þessum verkum Grétu, ljósmyndum og textum, hún kom í þáttinn í dag. Við fengum svo póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni og í korti dagsins segir Magnús frá uppáhaldsgönguleið sinni í Eyjum, en sú leið geymir dramatíska sögu af ungum manni sem tókst að klífa sextugan hamar í vondu veðri, hamar sem talinn er vera ófær eða í besta falli stórhættulegur. Magnús segir okkur líka frá Luis Rubiales, fyrrum forseta spænska fótboltasambandsins sem varð að segja af sér vegna kossins sem hann þröngvaði á einn leikmann spænska kvennalandsliðsins sem varð heimsmeistari á dögunum. Tónlist í þættinum En hvað með það / Ragnar Bjarnason, Pétur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson (C. Mattone og Ómar Ragnarsson) I valet og kvalet / Helena Eriksson (Jan Johansson) (Helena syngur Monika Zetterlund) Come Prima / Haukur Heiðar og hljómsveit (Mario Panzeri, S. Paolo-Tacini og Mary Bond) What He?s Done for Me / The Five Blind Boys of Alabama (Clarence Fountain) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON