Ópíóíðafíkn, leiðtogafundur, myndskeið af ofbeldi
Spegillinn - A podcast by RÚV
Categories:
Dauðsföll vegna ópíóíða gætu orðið fleiri í ár en nokkru sinni, segir Valgerður Rúnarsdóttir forstjóri Vogs. Ungt fólk leitar í auknum mæli á sjúkrahúsið vegna ópíóíða. Á leiðtogafundi Evrópuráðsins í maí verður áhersla lögð á hvernig draga megi Rússa til ábyrgðar vegna Úkraínu, segir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir utanríkisráðherra. Fólk sem vinnur á stofnunum í grennd við fundarstaðinn, Hörpu, hefur verið beðið að vinna heima þessa daga, segir Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn. Guðrún Jónsdóttir þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði telur nauðsynlegt að loka göngustígum á vorin þar sem aurbleyta er mikil. Fyrsta vonarsvæði Íslands hefur verið valið. Vonarsvæði eru hafsvæði sem þykja einstök á heimsvísu og eru mikilvæg fyrir lífkerfi hafsins. Amanda Guðrún Bjarnadóttir ræddi við Evu Björk Káradóttur framkvæmdastjóra Hvalasafnsins á Húsavík. ____ Seinustu ár hefur neysla ópíóíða aukist hér á landi og samhliða því hefur dauðsföllum vegna þess fjölgað. Hátt í 240 manns leituðu sér aðstoðar hjá SÁÁ í fyrra, vegna ópíóíðafíknar og hafa aldrei verið fleiri. Bjarni Rúnarsson ræddi við Valgerði Rúnarsdóttir. Ríkislögreglustjóri bað í dag fólk um að láta vita af því verði það vart við ofbeldismyndbönd ungmenna í dreifingu á netinu. Alltaf berast annars lagið fréttir af því að unglingar taki myndir eða myndskeið af slagsmálum eða jafnvel líkamsárásum og sendi svo sín á milli. María Rún Bjarnadóttir verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá Ríkislögreglustjóra segir að þessar upptökur og deilingar séu áhyggjuefni jafnvel þó að þetta sé jaðarhegðun hjá minnihluta ungs fólks. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við hana. Joe Biden kom ekki mörgum á óvart þegar hann tilkynnti í morgun að hann ætlaði að gefa kost á sér til endurkjörs í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á næsta ári. Hann var nokkrum sinnum búinn að gefa það í skyn í viðtölum en hin formlega tilkynning liggur fyrir og var birt á samfélagsmiðlum; myndskeið upp á þrjár mínútur og fjórar sekúndur. Ásgeir Tómasson segir frá. Spegillinn 25. apríl 2023 Umsjónarmaður: Anna Kristín Jónsdóttir Tæknimaður: Kormákur Marðarson Stjórn fréttaútsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir