Samkomulag ríkissáttasemjara og Eflingar; stýrivaxtahækkun

Spegillinn - A podcast by RÚV

Categories:

Ásakanir hafa gengið á víxl milli stjórnenda Íslandshótela og verkfallsvarða Eflingar um verkfallsbrot og hótanir. Samkomulag náðist á milli ríkissáttasemjara og lögmanns Eflingar í dag varðandi kjörskrá félagsins. Róbert Jóhannsson tók saman, rætt við Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara. Annarri umræðu um útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra lauk nokkuð óvænt á Alþingi í dag þegar þingmenn Pírata, sem hafa verið sakaðir um málþóf, tóku sig af mælendaskrá. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata hélt 130 ræður um málið á Alþingi og hún beindi orðum sínum að stjórnarflokkunum í síðustu ræðunni í dag. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að vaxtahækkun Seðlabankans í morgun hafi ekki komið á óvart. Það hafi hins vegar rökstuðningurinn gert og trúverðugleiki bankans hafi beðið hnekki. Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga gagnrýnir að svo virðist sem áhættumati fyrir laxeldi hafi verið breytt á hæpnum forsendum og mögulegt eldi aukið án tilefnis. Rúnar Snær Reynisson talaði við hann. Prófessorar og háskólakennarar lýsa áhyggjum vegna niðurskurðar í Háskóla Íslands. Pétur Henry Petersen, formaður fagfélags prófessora segir að áhrifin geti verið alvarleg. Pétur Magnússon talaði við hann. --------------------- Stýrivextir Seðlabankans voru hækkaðir í morgun í ellefta sinn í röð og eru 6,5%. Verðbólga í nýliðnum mánuði var 9,9%. Seðlabankastjóri segir kjarasamninga hafa reynst dýrari en vonir stóðu til. Forysta verkalýðsfélaga sem hefur nýverið skrifað undir kjarasamninga fordæmir hækkunina og segir hana gera kjarabætur nýrra samninga að engu. Bjarni Rúnarsson tók saman, Haukur Holm talaði við Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra, Halldór Benjamín Þorbergsson og Ragnar Þór Ingólfsson formann VR. Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu var fagnað mjög þegar hann ávarpaði breska þingið, frá Bretlandi fer hann til Frakklands og heldur svo til Brussel. Ásgeir Tómasson segir frá ferðum hans og móttökunum. Brot úr kynningu Lindsey Hoyle, forseta neðri deildar breska þingsins, Zelensky og Charles Michel forseta leiðtogaráðs ESB. Nichole Mosty, forstöðumaður Fjölmenningarseturs segir að líta beri á fólk sem leitar hér skjóls sem innflytjendur. Í mörg horn sé að líta en á sjötta hundrað flóttamenn hafa komið til landsins það sem af er ári. Markús Þór Þórhallsson talaði við hana.