Skaftárhlaup, bankaskýrsla, regnbogatröppur skemmdar, loðdýrarækt

Spegillinn - A podcast by RÚV

Categories:

Rennsli eykst enn í Skaftá, en hægt hefur á aukningunni. Búið er að loka Hólaskjóli - hálendismiðstöðinni. Enn er óljóst úr hvorum Skaftárkatli hleypur. Rætt var við Áróru Bryndísi Ásgeirsdóttir sem starfar í Hólaskjóli og Þorstein Þorsteinsson, sérfræðing í jöklarannsóknum á Veðurstofunni. Vaxtamunur hefur ekki minnkað þrátt fyrir bætta afkomu og minni rekstrarkostnað bankanna. Gjaldskrár eru óskýrar og oft óljóst fyrir hvað fólk er að borga. Skógareldarnir í Grikklandi eru þeir mestu innan Evrópusambandsins frá aldamótum. Regnbogatröppur á Akureyri voru spreyjaðar svartar í nótt. Þetta er í annað skipti á þremur dögum sem skemmdarverk hafa verið unnin á regnbogaskreyttum gönguleiðum. Linda Björk Pálsdóttir forvarna- og félagsmálaráðgjafi hjá Akureyrarbæ telur hugsanlegt að innblástur af verknaðinum hafi verið fenginn af svipuðu skemmdarverki á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Svifryksmengun er alvarlegasta heilsufarsógnin sem steðjar að jarðarbúum segir í nýrri skýrslu um ástand loftslagsmála í heiminum. Ef dregið yrði úr henni sem næmi markmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar lengdi það ævi þeirra um 2,3 ár að meðaltali. Viðskiptabankarnir þrír hafa heilt yfir náð fram verulegri hagræðingu í starfsemi sinni og arðsemi bankanna er núna almennt nokkuð hærri en hjá bönkum af svipaðri stærðargráðu á öðrum Norðurlöndunum. Og vaxtamunur bankanna er mun meiri hér en þar. Erfitt getur verið fyrir neytendur að átta sig á hvaða þjónustu þeir eru að kaupa. Þetta eru meginniðurstöður starfshóps sem Lilja Alferðsdóttir viðskiptaráðherra skipaði fyrir ári, til að skoða um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna. Ragnhildur Thorlacius ræddi við Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna sem sat í starfshópinum. Fuglaflensa hefur komið hart niður á loðdýrabúum í Finnlandi. Hennar hefur orðið vart á um 25 búum og þegar er búið að lóga öllum dýrum á þeim, meira en 120 þúsund minkum og refum. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Einar Eðvald Einarsson á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Hann er formaður loðdýradeildar Bændasamtakanna. Einar hefur ekki miklar áhyggjur af fuglaflensa berist í loðdýr hér, aðstæður á búunum séu aðrar. Umsjónarmaður var Ragnhildur Thorlacius. Tæknimaður var Jón Þór Helgason. Annalísa Hermannsdóttir stjórnaði fréttaútsendingu.