Tilfinningar og kaffi í Tollhúsi, búið ofan á kvikugangi í Kelduhverfi

Spegillinn - A podcast by RÚV

Categories:

Það eru allar tilfinningar eðlilegar á þessum tímapunkti að sögn Aðalheiðar Jónsdóttir hjá Rauða krossinum. Hún segir að fólk bregðist misjafnlega við áföllum eins og því sem Grindvíkingar ganga í gegnum núna. Sumir verða reiðir, aðrir verða dofnir, svo dæmi séu tekin. Í þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga, sem var opnuð í gamla Tollhúsinu í Tryggvagötu í Reykjavík í dag, verður bæði hægt að fá sér kaffi og hitta vini og félaga úr bænum og innan tíðar verður hægt að fá sálrænan stuðning. Með tíð og tíma á svo að veita alls kyns upplýsingar í þjónustmiðstöðinni, þær upplýsingar sem Grindvíkinga vantar hverju sinni. Kvikugangar, sambærilegir þeim sem nú liggur undir Grindavík og nágrenni, mynduðust í eldsumbrotunum í Kröflu fyrir bráðum 50 árum og teygðu sig alla leið norður í Öxarfjörð. Maður sem þá bjó í Kelduhverfi segir það hafa verið erfiðan tíma, sem nú rifjist upp við atburðina í Grindavík. Hann ráðleggur fólki að halda ró sinni, sýna gætni og flana ekki að neinu. Hæstiréttur Bretlands komst í dag að þeirri niðurstöðu að ólögmætt væri að senda hælisleitendur til Rúanda, eins og stjórnvöld hafa áformað. Ástæðan er ekki sú að það sé ólöglegt að senda hælisleitendur til þriðja lands heldur þykir öryggi þeirra ekki tryggt í Rúanda. Umsjón með Speglinum hafði Ragnhildur Thorlacius.