Verkföll, veðurviðvörun, ofbeldi ungmenna, F-16, réttindi hinsegin
Spegillinn - A podcast by RÚV
Categories:
Engin niðurstaða varð á samningafundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag. Verkföll í leik- og grunnskólum halda áfram á morgun. Ásthildur Kristín Björnsdóttir móðir þiggja barna í Mosfellsbæ segir að verkfallið hafi haft áhrif á þau öll, í viðtali við Benedikt Sigurðsson. Alexander Kristjánsson sagði frá. Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular veðurviðvaranir fyrir mest allt landið á morgun. Fólk er hvatt til þess að festa trampólín, grill og aðra lausamuni áður en stormurinn skellur á Sunna Karen Sigurþórsdóttir ræddi við Marcel De Vries veðurfræðing. Héraðssaksóknari hefur ákært starfsmann í úrræði fyrir að hafa árið 2021 nauðgað manni með þroskahömlun. Átta aðildarríki Evrópusambandsins hafa lagst gegn löggjöf sem takmarkar losun gróðurhúsaloftegunda í umferðinni. Ríkin segja að löggjöfin geti komið niður á fjárfestingum bílaiðnaðarins. Ísak Regal sagði frá. Íslensk kona um fimmtugt er alvarlega særð eftir hnífstungu á heimili sínu í Lundi í Svíþjóð á laugardag. Manni, sem var í fyrstu grunaður um verknaðinn, hefur verið sleppt úr haldi. Þorleifur Þorleifsson, sem hljóp 335 kílómetra í Bakgarðshlaupi í Þýskalandi um helgina, segist hafa það fínt en hlakkar til að nærast og hvílast. Sunna Karen Sigurþórsdóttir ræddi við hann. Lyfjameðferð sem dregur úr taugaskaða, með því að virkja kæliferil frumna varð hlutskörpust í samkeppninni um Nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands. Pétur Magnússon ræddi við Hans Tómas Björnsson prófessor. Funi Sigurðsson framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna og fjölskyldustofu hefur áhyggjur af auknum vopnaburði ungmenna. Ragnhildur Thorlacius ræddi við hann í framhaldi af fréttum um fjölgun tilkynninga til Barnaverndar Reykjavíkur um ofbeldi barna gegn öðrum börnum. Ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að vopna Úkraínuher með F-16 orrustuþotum hefur víða verið vel tekið, þar á meðal í höfuðstöðvum Evrópusambandsins. Ásgeir Tómasson sagði frá. Lagalega hefur staða hinsegin fólks batnað síðustu misseri og er nú einhver sú sú besta í Evrópu, samkvæmt nýjasta Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks. Á sama tíma virðist hafa orðið nokkuð bakslag í samfélaginu og fordómar og hatursumræða farið vaxandi á ný, sérstaklega í garð transfólks. Ævar Örn Jósepsson ræddi við Álf Birki Bjarnason formaður Samtakanna '78. Ragnhildur Thorlacius hafði umsjón með Speglinum, tæknimaður var Mark Eldred og Margrét Júlía Ingimarsdóttir stjórnaði fréttaútsendingu.